top of page

 Um vef og verkefni

Hugmyndir til nota í listgreinum og á öðrum greinasviðum

Listkennslusprotar eru hugmyndabanki og upplýsingaveita fyrir kennara í listgreinum og skapandi kennara á öðrum greinasviðum þegar finna þarf hugmyndir og áætlanir til nota í kennslu þar sem lögð er áhersla á myndmennt eða sjónlistir. Undir flipanum 1. bekkur er hægt að finna nokkrar hugmyndir eða kennsluáætlanir að verkefnum fyrir nemendur í fyrsta bekk grunnskóla, undir flipanum 2. bekkur efni sem hentar í öðrum bekk og þannig koll af kolli. Verkefni fyrir unglinga í 8. til 10. bekk eru höfð saman undir flipanum 8.–10. bekkur

Fyrir hverja hugmynd að verkefni er tekið fram fyrir hvaða aldur verkefnið er hugsað og hvað er gert ráð fyrir að það muni taka langan tíma í fyrirlögn og úrvinnslu. Einnig koma fram helstu hæfniviðmið. Þá er því lýst stuttlega hvernig framkvæma á verkefnið og greint frá efni, áhöldum og hjálpargögnum sem þarf til verksins. Reynt er að gera hverja áætlun eða hugmynd þannig úr garði að kennari sé fljótur að átta sig á hvað verið er að leggja til.

Meistaraverkefni við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Ég hef lengi haft áhuga á skapandi starfi og valdi mér starfsmenntun og starfsvettvang þar sem það er í brennidepli. Vefurinn og greinargerð um hugmyndir og vinnu að baki honum eru meistaraverkefni mitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í febrúar 2018. Leiðbeinandi var Torfi Hjartarson og ráðgjöf veitti Hanna Ólafsdóttir. Verkefnið má sjá á vefsetri Skemmu

Eftir að hafa ígrundað hugmyndir að meistaraverkefni í menntavísindum fannst mér vanta hugmyndabanka fyrir kennara í myndmennt að leita í eftir sniðugum og verðugum verkefnum settum fram á íslensku og löguðum að þeirra þörfum. Það er von mín að þetta safn kennsluhugmynda auðveldi kennurum að mæta kröfum nýrra tíma og auðga nám og kennslu í myndmennt.

Anna Sigríður Guðbrandsdóttir

Listkennslusprotar

© 2023 Artist Corner. Vefur settur upp af höfundi á wix.com.

bottom of page