
Nýársnótt
Áætlun
Markmið
Með þessu verkefni er áhersla lögð á að nemendur kynnist mismunandi áhöldum í myndsköpun sinni. Einnig að þeir læri að fást við myndræna frásögn úr nánasta umhverfi byggða á upplifun, ímyndun og reynslu.
Efni, áhöld, hjálpargögn
Svart karton - A4
Akrýlmálning - margir litir
Pappírshólkur
úr klósettpappírsrúllu
Skæri
Áhöld undir liti,
til dæmis litaspjöld
eða pappadiskar
Myndir og myndskeið
til að nota í kveikju
- flugeldasýning
2010 - present
2010 - present
Framkvæmd
Hver og einn nemandi fær einn hólk úr klósettpappírsrúllu í hönd. Nemendur byrja á því að klippa upp í hálfan hólkinn eins og kennari sýnir. Því næst halda nemendur áfram að klippa upp í hólkinn með eins jöfnu millibili og þeir geta þangað til búið er að klippa upp í hólkinn jafna flipa allan hringinn. Næst þvinga eða sveigja nemendur ílanga og klipptu flipana út í allar áttir þannig að þeir myndi sól sem baðar sólargeislum sínum í allar áttir. Þá er málningaráhald nemendans tilbúið.
Því næst fá nemendur í hendur svart kartonblað af stærðinni A4, eitt hver. Tveir nemendur fá saman til afnota tvo pappadiska eða önnur ílát undir liti (gott væri ef kennari væri með diska eða önnur ílát sem gætu nýst aftur og aftur). Þá eru settir þrír akrýllitir á hvorn disk. Setja mætti gulan, bláan og hvítan á annan diskinn og gulan (grænan?), bláan og rauðan á hinn, svo dæmi sé tekið.
Næst er hólknum dýft í málninguna og henni „stimplað“ á kartonið eins og myndasmiðnum finnst fara best. Nemendur ná að „stimpla“ um það bil þrisvar á hvert blað þannig að lögun formsins haldi sér á blaðinu, eftir það reynist það erfitt. Gott er að hafa minnst eitt blað til viðbótar á hvern nemanda til að prófa mismunandi útfærslur.
Þetta verkefni getur jafnan nýst sem aukaverkefni með öðru stóru verkefni til uppfyllingar.
Aldur: 1. bekkur
Tími: Um 45 mínútur
Viðfangsefni: Að mála með mismunandi áhöldum
Kveikja
................................................................................................................................................................................................................................
Þetta verkefni getur verið tilvalið að leggja fyrir nemendur eftir jólafrí þegar skammt er liðið frá áramótum og þrettándinn jafnvel ekki að baki. Þá eru nemendur með hugann við efnið og geta tengt við það á allan hátt. Hægt er að byrja kennslustundina á þvi að ræða um gamlárskvöld og fá fram hvernig upplifun nemendanna hafi verið það kvöld. Einnig mætti sýna myndir og myndskeið frá flugeldasýningum til að vekja rétt hughrif. Enn fremur væri hægt tala um alla þá liti sem við sjáum þegar flugeldarnir springa og endurnýtingu hluta sem nota má á mismunandi hátt í listsköpun.
....................................................................................................................................................................................
......................................................................................................................................................................................