top of page
Áætlun
 

Aldur: 1. bekkur

Tími: Um 60 mínútur

Viðfangsefni: Myndbygging

Markmið

Í þessu verkefni eiga nemendur að geta glímt við sköpun upp á eigin spítur með einfaldri útfærslu á myndefni með það fyrir augum að þeir auki færni sína í meðferð á litum, formum og myndbyggingu. Einnig er stefnt að því að þeir geti tjáð sig á einfaldan hátt um myndefnið og nærumhverfi sitt.

 

Efni, áhöld, hjálpargögn

Pappadiskur

Kartonpappír -
rauður, appelsínugulur
eða gulur að lit

Akrýlmálning
- blá, græn og brún

Skeljar (ef vill)

Blýantur

Skæri

​Lím

2010 - present
2010 - present
Framkvæmd

Nemandi fær í hendur pappadisk þar sem kennari er búinn að afmarka með blýanti bogadreginn hluta. Þennan strikaða hluta á jaðri pappadisksins klippa nemendur af diskinum.

Afklippta hluta disksins þurfa nemendur að halda upp á vegna þess að hann nýtist sem botn eða undirstaða seinna meir. Gott er að merkja hann nemandanum. Á diskinn sjálfan eiga þeir að mála og líma efni sem lýsir umhverfi í fiskabúri.

Nemendur fá nú pensil ásamt litapallettu með bláum, grænum og brúnum akrýllitum. Palettuna er kennari búinn að útbúa fyrir hvern og einn nemenda fyrir kennslustundina.

Næst mála nemendur vatnið í „fiskbúrinu“ og ásamt botni og botngróðri eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Það tekur örlitla stund fyrir verkið  að þorna og þá stund er tilvalið fyrir nemendur að nota til að þvo pensilinn sinn og pallettuna.

Því næst er að hægt að líma litlar skeljar eða annað létt efni úr fjörunni á málaðan botninn og útbúa lítinn fisk eða tvo til að setja í búrið. Það er gert með því að teikna á karton lítinn fisk sem klipptur er út og límdur eða festur með öðrum hætti á viðeigandi stað á pappadiskinum. Því næst er bogadregna stykkinu sem klippt var af disknum eða búrinu ofanverðu komið fyrir við botn kúlulaga búrsins og hlutarnir tveir límdir saman. Þá er kominn fiskur í kúlulaga búr eins og myndin að ofan sýnir.

                              

                       Gullfiskurinn minn

 

 

..............................................................................................................................................................................

Kveikja

................................................................................................................................................................................

Hér væri tilvalið að hefja kennslustundina á umræðum, hvort einhverjir nemendanna eigi gæludýr og hvaða gæludýr þeir eigi? Svo getur kennari fjallað um fiska sem gæludýr, lífshætti þeirra og mismunandi tegundir. Við þá umfjöllun mætti, svo eitthvað sé nefnt, sýna nemendum myndir af ýmsum tegundum skrautfiska. Í framhaldi af því væri svo hægt að fara niður í fjöru, ef kennarar eru svo heppnir að hún er ekki langt undan, til að tína skeljar, kuðunga, þangbúta og annað tilfallandi sem gæti nýst í verkefni sem þetta. Fjöruferð er samt alls ekki nauðsynleg því hægt er að útbúa þá hluti á annan hátt, til dæmis með teikningu.

© 2023 Artist Corner. Vefur settur upp af höfundi á wix.com.

bottom of page