
Appelsínuandlit
Áætlun
Aldur: 4. bekkur
Tími: Um 2 x 60 mínútur
Viðfangsefni: Sköpun
Markmið
Nemendur eiga að geta nýtt grunnþætti myndlistar við eigin sköpun og unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tvívíð og þrívíð verk. Einnig eiga þeir að geta beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum við þá sköpun.
Efni, áhöld, hjálpargögn
Bylgjóttur pappabakki
undan ávöxtum
Skissublöð
Blýantur
Akrýlmálning
Pensill
Litapalletta
2010 - present
2010 - present
Framkvæmd
Oft má finna spennandi efnivið á kassasvæði stórmarkaðanna. Þetta er tilvalið að nýta sér enda skemmtilegt að nota fjölbreyttan efnivið til listsköpunar og finna til eitthvað sem ekki er nýtt á hverjum degi. Hér má til dæmis sjá bylgjóttan pappa undan ávöxtum. Í þetta verkefni þarf einn slíkan pappa og úr honum eiga nemendur að útbúa brjóstmynd af sjálfum sér.
Nemendur fá pappann til að handleika og velta fyrir sér möguleikum hvað snertir útfærslu á verkefninu. Því næst skissa þeir nokkrar hugmyndir að sjálfsmynd á skissublöðin, velja svo eina hugmynd og útfæra hana á pappann sjálfan, fyrst með blýanti og svo með akrýlmálningu eins og við á.
Um leið og verkið er þornað má hengja það upp. Gaman væri svo að fá nemendur til að giska á hvaða nemandi eigi hvaða mynd.